Aðalmálið fyrir þig og maka þinn

Maki þinn er dýrmætur – láttu hann finna það

Ein fallegasta ástarjátning sem til er, einhver yndislegustu skilaboð sem þú getur sent maka þínum hljóða eitthvað á þessa leið: “Þú ert það dýrmætasta sem ég á”  Það er fátt sem yljar manni eins um hjartarætur og vissan um að einhver elskar mann eins og maður er, að maður skipti verulegu máli í lífi þeirra manneskju sem maður elskar.  Þessi vissa fyllir mann öryggi og löngun til að vera trúr þessari manneskju sem kann svo vel að meta mann.  
Þetta er allt í senn, hrós, traustyfirlýsing og gullfalleg ástarjátning.

Besta leiðin til að koma þessum skilaboðum til makans er – jú, einmitt – einfaldlega að segja honum það.  Láttu maka þinn vita það með reglulegu millibili hvað það er sem þú kannt best við í fari hans.  Vertu nákvæmur.  Ef þú stenst ekki brosið hans, hláturinn, eitthvað sem hann gerir eða segir, láttu hann vita það.  Ekki ganga út frá því sem vísu að hann viti hvers vegna þú elskar hann – það getur vel verið að hann hafi ekki hugmynd um það.  Það getur verið að þú hafir ekki sagt honum það lengi, lengi.

Ein af aukaverkunum þessarar ástarjátningar er sú að sambandið styrkist og endurnýjast.  Með því að einblína á jákvæða þættina í fari hans, siðum og hegðun, þá dregurðu athygli ykkar beggja að því sem er gott í sambandinu, þú ferð að hugsa um það góða sem býr í ykkur báðum.  Það hjálpar þér að líta fram hjá göllunum og kemur í veg fyrir að þú látir smámálin ergja þig.  Og það sem meria er: Þegar maki þinn veit nákmvæmlega hvað það er sem þú kannt best að meta í hegðun hans og viðhorfum, þá aukast líkurnar á að hann hegði sér fremur þannig. Dæmi: Ef þú segir við maka þinn: ”Mér finnst yndislegt að þú skulir alltaf muna eftir að þakka mér fyrir þegar ég hef lagt mig fram um að gera eitthvað fyrir þig” – þá er nokkuð öruggt að hann mun halda því áfram.  Þín jákvæðu viðbrögð styrkja þessa jákvæðu hegðun.  Ef þú hins vegar tekur því sem sjálfsögðum hlut að hann þakki þér fyrir það sem þú gerir fyrir hann, og maki þinn veit ekki hvort það skiptir þig yfirhöfuð nokkuð máli, eru mun meiri líkur á að með tímanum hætti hann að þakka þér fyrir.

Ein góð vinkona okkar er sálfræðingur sem hefur sérhæft sig í hjónaráðgjöf.  Hún fullyrðir að flestir skjólstæðingar hennar viti upp á hár hvað í fari þeirra fari mest í taugarnar á maka þeirra en hafi ekki hugmynd um hvað í fari þeirra hann kunni best að meta.  Það er ekki að furða þó þetta fólk þurfi ráðgjöf!  Hún heldur því fram að um leið og fólk fari að horfa meira á það jákvæða í fari maka síns – í stað þess að einblína eingöngu á það sem gæti verið eða ætti að vera öðruvísi – gjörbreytist sambandið til hins betra.

Eins og flest hjón höfum við gengið saman í gegnum súrt og sætt – aðallega þó sætt.  Eitt hefur samt ekki breyst: Við elskum og virðum hvort annað.  Ég er það dýrmætasta sem hún á – og hún er mitt dýrasta djásn. 
Við vonum að þið getið sagt það sama.

Kafli úr bókinni ”Láttu ekki smámálin í ástinni ergja þig” eftir Richard og Kristine Carlson

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband